Verkefni
VERKVIST sinnir fjölbreyttum verkefnum þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni, endingargóðar lausnir, innivist, heilsu og vellíðan í byggingum hvort sem það er í ráðgjöf, eftirliti eða úttektum.
Svið Innivistar & Byggingatækni og Innivistar & Lýðheilsu sjá um úttektir, mat á rakaástandi, og ráðgjöf við nýframkvæmdir og endurbætur, auk ráðgjafar um rakaöryggi, byggingareðlisfræði og innivist svo sem efnisval og loftræsingu.
Umhverfis & Sjálfbærni svið sinnir fjölbreyttum verkefnum eins og orkuútreikningum mannvirkja, umhverfisráðgjöf, kolefnisútreikningum, dagsbirtuútreikningum, lífsferilsgreiningum, vistvottunum og útgáfu EPD blaða fyrir innlenda framleiðslu á byggingarvörum.
Hér má sjá brot af þeim verkefnum sem eru í gangi hjá VERKVIST 2024.
Á Orkureit verða byggðar 436 íbúðir af Safír. VERKVIST er með hlutverk Svansvottunarfulltrúa, rakaöryggisfulltrúa, ráðgjafa í rakaöryggi og framkvæmir úttektir, mælingar og úrvinnslu gagna sem þarf til að tryggja að kröfum Svansvottunar sé fylgt.
Hér má sjá nánari umfjöllun varðandi verkefnið.
Kársnesskóli Svansvottun & ráðgjöf
VERKVIST er í hlutverki Svansvottunarfulltrúa, rakaöryggisfulltrúa og tekur þátt í ráðgjöf við nýbyggingu Kársnesskóla í öðrum fasa verkefnisins.
Kársnesskóli er byggður úr KLT ( CLT = cross laminated timber) timbureiningum. Við reisingu slíkra húsa er mikilvægt að huga að rakaöryggi og ef frávik koma fram vegna raka að bregðast fljótt og örugglega við.
Lindargata 3 Svansvottun & úttektir
Lindargata 3 sem hýsti áður Hæstarétt mun verða fyrsta endurbótaverkefni FSRE sem verður Svansvottað.
VERKVIST er í hlutverki Svansvottunarfulltrúa og hefur séð um umhverfisúttektir sem snúa að efnagreiningum, úrgansmálum, rakaúttekt og sýnatöku, rakaöryggisáætlun og fylgt eftir öðrum kröfum Svansins sem þarf að fylgja útboðsgögnum við endurbætur.
Loftgæðamælingar eftir bruna
VERKVIST setti upp mæla í Kringlunni eftir bruna til að gæta öryggis vegna loftgæða fyrir ákveðna viðskiptavini í Kringlunni. Síritar fylgdust með loftgæðum og gáfu til kynna hvort loftgæði væru ásættanleg eftir brunann.
Einnig er hægt að framkvæma sértæka loftgæðamælingu eftir bruna til að meta loftgæði og efnamengun til framtíðar í rýminu. Síritun fer fram á rokgjörnum efnum, formaldehýði, kolmónoxíði og svifryki auk hita og raka.
Lífsferilsgreiningar LCA
Sérfræðingar VERKVISTAR vinna lífsferilsgreiningar (LCA) sem er alhliða greiningaraðferð sem metur umhverfisáhrif byggingar, vöru eða þjónustu yfir allan líftíma hennar, frá framleiðslu til förgunar.
Lífsferilsgreining veitir gögn og upplýsingar sem stuðla að betri ákvarðanatöku varðandi hönnun, efnisval og framleiðsluaðferðir til að minnka umhverfisáhrif og stuðla að sjálfbærni.
Reykjavíkurborg Kynning & fræðsla
Sérfræðingar VERKVISTAR halda námskeið og fræðslu varðandi innivist og viðhald bygginga fyrir umsjónarmenn skóla- og frístundabygginga í Reykjavíkurborg. Fjallað er um mikilvægi góðrar innivistar fyrir nemendur og starfsfólk og hvernig megi viðhalda byggingum til að hámarka endingu og góð loftgæði.
Auk þess sér VERKVIST um ástandsúttektir og ráðgjöf í skólahúsnæði Reykjavíkurborgar.
Við hjá VERKVIST viljum taka þátt í framförum og tengjast alþjóðasamfélagi í rannsóknum á byggingum, sjálfbærni og innivist. Aðilar hjá VERKVIST í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og SINTEF hafa hlotið styrk frá NORDFORSK til að kanna loftgæði og vellíðan í framtíðarvinnuumhverfi.