Þann 3.október síðastliðinn tók Garðabær við fyrsta Svansleyfinu sem veitt hefur verið til sveitarfélags fyrir Svansvottaða byggingu.
Um er að ræða leikskólann Urriðaból við Holtsveg 20 í Garðabæ, byggðan úr krosslímdum timbureiningum (CLT).
Verkefnið hlaut einnig Grænu skófluna, sem er viðurkenning sem Grænni byggð veitir árlega fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Alma Dagbjört einn af eigendum og stofnendum VERKVISTAR tók þátt í verkefninu Urriðaból, sem Svansvottunarfulltrúi verkefnisins.
Alma hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á Svansvottunarferlinu bæði sem ráðgjafi til húseiganda, verktaka og birgja sem vilja fá vörur sínar Svansvottaðar eða samþykktar til notkunar í Svansvottuðum verkefnum.
Svansvottun leggur áherslu á lækkun kolefnisspors, hringrásarhagkerfið, orkunotkun, loftgæði, innivist og lágmörkun skaðlegra efna bæði fyrir heilsu og umhverfi. Bæði er hægt að svansvotta nýbyggingar og endurbætur bygginga.
Með því að fara með nýbyggingu eða endurbætur í gegnum Svansvottunarferli er tryggt ákveðið eftirlit á framkvæmdartíma og gæðastjórnun á verkstað. Umræður um skort á eftirliti í íslenska byggingariðnaðinum og tengsl þess við galla í nýbyggingum hafa verið áberandi.
Svansvottunarkerfið er ákveðið svar við þessu ákalli þar sem kröfur eru settar á ákveðna þætti í nýbyggingar- og endurbótaferlinu og farið er í gegnum skilyrði og gátlista sem þarf að fylgja eftir, sem kallar á aukið eftirlit.
Rakaöryggi: Gott dæmi um aukið eftirlit er skipun rakaöryggisfulltrúa fyrir Svansvottuð verkefni. Rakaöryggisfulltrúi leggur fram rakaöryggisáætlun samkvæmt kröfum Svansins og sér um eftirfylgni og eftirlit með þeim kröfum. Meðal annars fylgist hann með raka og þornun byggingarefna á verktíma með því að framkvæma viðeigandi rakamælingar, fylgjast með frágangi við glugga og hurðir, efnisvali á svæðum þar sem er rakaálag og frágangi í votrýmum svo fátt eitt sé nefnt.
Rétt efnisval er síðan lykilatriði til að tryggja heilnæm loftgæði innandyra, endurnýtingu á efnum og lágmörkun kolefnisspors, í samræmi við markmið um sjálfbærni og umhverfisvernd.
Lífsferilsgreining (LCA) sem er hluti af Svansvottunarferlinu, er aðferð til að meta umhverfisáhrif byggingar, vöru eða þjónustu í gegnum allan lífsferil hennar. Með því að framkvæma LCA greiningar við val á efnum er hægt að meta umhverfisáhrif þeirra, sem gefur okkur tækifæri til að velja byggingarefni sem stuðla að hringrásarhagkerfinu og draga úr kolefnisspori bygginga. Þar sem slík krafa er ekki aðeins í vottunarkerfum heldur mun einnig taka gildi í byggingarreglugerð haustið 2025 þá er mikilvægt að iðnaðurinn nýti vel þann aðlögunartíma sem er nú framundan.
Mikilvægt er fyrir birgja og framleiðendur að eiga umhverfislýsingu eða EPD blað fyrir sínar vörur. EPD blöð miðla upplýsingum um umhverfisáhrif á einfaldan og skýran hátt, ásamt því að vera vottuð af þriðja aðila sem eykur gagnsæi og dregur úr áhættu á grænþvotti. Þannig stuðla þau að því að hönnuðir, verktakar og fyrirtæki geti tekið upplýstar ákvarðanir um val á vörum.
EPD blað eða umhverfislýsing eru einnig forsenda þess að vara sé valin til notkunar í byggingu þegar framkvæma á lífsferilsgreiningar.
Svansvottun nýbygginga, við endurbætur og í rekstri bygginga er því skref í átt að aukinni sjálfbærni í byggingariðnaði og eftirlit með ákveðnum áhættuþáttum er sérstaklega aukið.
Það er okkar trú að þetta ferli tryggi aukna endingu, gæði og heilnæmara húsnæði fyrir notendur ásamt því að draga úr umhverfisáhrifum bygginga.
Comments