top of page

Námskeið með Reykjavíkurborg - bætt loftgæði og lýðheilsa í skólum

Í maí hélt VERKVIST í samvinnu við Reykjavíkurborg námskeið varðandi efnanotkun, þrif, hreinsun og aðgerðir til að bæta loftgæði í skólum og frístundabyggingum.

Umsjónarfólk, húsverðir og starfsfólk skóla og frístundaheimila mættu í höfuðstöðvar Reykjavíkurborgar í Borgartúnið þar sem líflegar og áhugaverðar umræður sköpuðust um loftgæði, heilsu og byggingar.


Á fundinum var settur upp loftgæðamælir þar sem þátttakendur gátu fylgst með í rauntíma loftgæðunum í salnum á skjái og í appi á meðan á fundinum stóð. Marktækar breytingar urðu t.a.m. á loftgæðum til hins betra við það eitt að opna glugga sem sýnir hvað loftun er mikilvæg heilsu okkar.


Grunnur lagður að ferlum og leiðbeiningum um þrif

Helsta ástæða og umfjöllunarefni fundarins var að fara yfir ferla við þrif í skólum og frístundahúsnæðum til þess að tryggja börnum og notendum betri loftgæði. Með því að huga að því hvaða efni eru notuð í okkar nærumhverfi getum við komið í veg fyrir óþarfa ertingu í andrúmsloftinu.


Regluleg loftskipti, rykhreinsun og takmörkun á notkun efna innandyra skiptir því höfuðmáli þar sem mörg hreinsiefna eru ertandi fyrir húð, augu og/eða öndunarfæri. Samkvæmt rannsóknum er ungt fólk oft á tíðum einnig viðkvæmara fyrir slíku áreiti. Það er því ljóst að góð loftgæði eru mikilvæg í öllum byggingum til að bæta heilsu og vellíðan og regluleg loftskipti, þá sérstaklega þar sem börn dvelja.


Ef heilnæm og mild efni eru notuð til almennra þrifa og sterk og sótthreinsandi efni einungis þegar þörf krefur til hverju sinni, á þeim svæðum sem til þarf, má bæta loftgæðin til muna í byggingum og tryggja betri innivist. Ekki síst þarf að horfa til þeirra skaðlegu umhverfisáhrifa sem sterk, ilmefnablönduð hreinsiefni geta haft á allt lífríkið.

Þetta frumkvæði Reykjavíkurborgar að efla lýðheilsu í skólum með því að bæta og huga almennt að loftgæðum er til fyrirmyndar og mun án efa hafa góð áhrif á vellíðan nemenda og starfsfólks í skólum Reykjavíkurborgar, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur, lýðheilsufræðingur og ráðgjafi hjá VERKVIST í heilnæmri innivist.

Til þess að hægt sé að innleiða nýja ferla og breytingar að þessu tagi þurfa allir sem að verkefninu koma að fá fræðslu og öðlast sameigilegan skilning á því hversu miklu máli loftgæði skipta fyrir heilsu og vellíðan barna og starfsfólks.


Við erum gríðarlega ánægð með góða þátttöku og viðbrögð þátttakenda á málefninu og hlökkum til að móta þetta enn frekar í góðri samvinnu, segir Sylgja Dögg að lokum.

Nánari upplýsingar um námskeið: Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sylgja@verkvist.is og Íris Magnúsdóttir, iris@verkvist.is 


Kommentarer


bottom of page