Hlynur Júlíusson, fagstjóri hjá VERKVIST verkfræðistofu hefur umsjón með heimilisskoðunum hjá fyrirtækinu. Hann var rétt í þessu að taka við nýrri sendingu sem inniheldur mælitæki og tól til rakaskimunar fyrir byggingar. Hann hefur brennandi áhuga á starfinu sínu og hefur um margra ára skeið unnið að fjölmörgum verkefnum tengdum innivist, ástandsskoðunum, gallagreiningum, tillögum að endurbótum og viðhaldi bygginga fyrir sveitarfélög, ríkið, borg og einkaaðila. Við náðum af honum tali á leiðinni út en hann var fullur tilhlökkunar að prufa nýju hitamyndavélina og mælana í næstu skoðun.
Hvernig fer heimilisskoðun fram?
„Úttekt heimilisskoðana hjá VERKVIST fer þannig fram að rakaskimað er meðfram útveggjum, undir gluggum, framan við útihurðar, í votrýmum og á áhættusvæðum. Stundum sést greinilega að það er raki í húsnæðinu en oft er hann leyndur, undir gólfefnum eða djúpt inn í byggingarefnum og því erfiðara að vita hvað um er að vera. Til þess notum við ýmsar aðferðir og ekki síst fyrri reynslu okkar og þekkingu. Við rakaskimun leitum við að frávikum, skoðum þau svæði nánar, finnum orsökina og metum afleiðingarnar. Í framhaldi er gefin ráðgjöf varðandi næstu skref og úrbætur. Í sumum tilfellum er þörf á sýnatöku þegar staðan er ekki ljós eða til að gefa okkur betri mynd af því hversu langt þarf að ganga í endurnýjun byggingaefna“, segir Hlynur.
Vinnum þvert á teymin og aðstoðum hvort annað með lausnir
„Ég er svo lánsamur að hafa unnið með og haft frábæra lærimeistara og má þá helst nefna Sylgju Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðing og lýðheilsufræðing sem hefur verið leiðandi í húsaskoðunum og heilnæmri innivist sl. 18 ár en hún stýrir sviðinu Innivist og lýðheilsa hjá VERKVIST.
Hvernig snýr landsbyggðin sér að?
„Fyrir þá sem búa úti á landi eða hentar betur að fá ráðgjöf símleiðis eða í gegnum myndspjall er hægt að panta viðtalstíma hjá sérfræðingum okkar. Stundum er það gert sem fyrsta skref og aðstoðum við eins mikið og unnt er varðandi rakavandamál, mótvægisaðgerðir, úrbætur og næstu skref í átt að betri heilsu. Ef óskað er eftir að við komum út á land í skoðanir þá að sjálfsögðu aðstoðum við fólk með það. Oft reynum við að para saman nokkrar skoðanir ef hægt er á svæðinu til að lækka kostnað við akstur. Við getum einnig leiðbeint með sýnatöku í gegnum myndspjall ef svo ber undir sem við síðan látum greina, lesum úr og veitum ráðgjöf í kjölfarið“, segir Hlynur.
Er löng bið eftir heimilisskoðun?
„Við vorum svo lánsöm að fá inn 3 nýja starfsmenn sem er frábær liðsauki og við það styttist biðin. Við getum komið með tiltölulega stuttum fyrirvara en við forgangsröðum eins og við getum og reynum að bregðast við bráðum tilfellum eins skjótt og auðið er“, segir Hlynur.
Af hverju er mikilvægt að láta ástandsskoða heimilið sitt?
„Langvinn rakavandamál geta leitt til þess að byggingarefni skemmast, óhóflegur örveruvöxtur myndast og mygla sem getur valdið íbúum heilsubresti byrjað að vaxa í hýbýlum okkar. Algeng eru öndunarfæraeinkenni, ofnæmi, tíðar sýkingar, höfuðverkir, útbrot, taugaverkir, mikil þreyta og svo margt annað. Með forvörnum og viðhaldi á byggingahlutum er hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Jafn mikilvægt er að láta skoða húsin okkar eins og bílana til að tryggja öryggi notenda. Það er miklu dýrara að gera við þegar allt er komið í óefni“, segir Hlynur.
Hvernig komst þú inn í þennan geira?
„Ég er lærður húsasmiðameistari frá Tækniskólanum og hóf störf við húsasmíði árið 2015. Frá árinu 2017 fór ég síðan að færa mig meira inn á verkefni tengdum rakaöryggi og innivist þar sem áhugi minn kviknaði og hef síðan unnið að fjölmörgum ástandsskoðunum fyrirtækja og heimila, eftirfylgni með framkvæmdum og verkefnastjórnun í skólum og stofnunum. Ég er einnig í loftþéttleikaprófunum, slagveðursprófunum, framkvæmdareftirliti o.fl. Ég hef aflað mér víðtækrar reynslu í úttektum og ráðgjöf á byggingum en þetta er orðið helsta áhugamálið mitt í dag fyrir utan golfið og fjölskylduna. Kvöldin fara oft á tíðum í að lesa greinar og skoða hvað er að gerast erlendis í þessum málefnum s.s. greinar um rakaöryggi, heilnæmar byggingar o.fl. Konan situr oft þétt við hliðin á mér og horfir á bíómynd á Netflix á meðan. Einnig sæki ég þau námskeið sem í boði eru til endurmenntunar eins og hjá Iðan fræðslusetri. Síðan er Sylgja, alfræðiorðabók um rakaskemmdir og myglu, á næsta borði“, segir Hlynur og brosir.
Hvernig bóka ég skoðun?
„Á vefsíðu okkar, verkvist.is er form sem hægt er að fylla út. Einnig er hægt að senda beint póst á skodun@verkvist.is eða hringja í síma 419 1500. Við erum að vinna í að bæta síðuna okkar en það kemur með sumrinu. Það hjálpar mikið að fá sendar myndir og stutta lýsingu á því í hvernig ásigkomulagi húsið er, viðgerðir og annað slíkt“, segir Hlynur.
VERKVIST verkfræðistofa sem sérhæfir sig í heilnæmum byggingum, innivist, byggingafræði og loftgæðum. Við komum flest frá rótgrónum stofum og úr námi og teymið er frábært. Við vinnum sem þverfaglegt teymi með rakaöryggi og byggingartæknifræðina að leiðarljósi sem Böðvar Bjarnason, byggingatæknifræðingur er í fararbroddi fyrir ásamt umhverfisþáttum og vottunum þegar við á sem Alma Dagbjört Ívarsdóttir, innivistar- og orkuverkfræðingur stýrir. Við vinnum þétt saman að því að leysa flókin mál og koma með úrbætur enda þaulreyndir fagmenn á sínu sviði innan fyrirtækisins.
Comments